Byltum skólaumhverfi sem hvetur til eineltis

Höfuðáhersla ætti að vera lögð á að börnum líði vel í skólanum. Námsárangur á að vera í öðru sæti.

Byltum skólaumhverfi sem hvetur til eineltis

Einelti í grunnskólum er viðvarandi vandamál þó vitundarvakning hafi vissulega orðið á undanförnum árum. Flestir eru orðnir meðvitaðir um að einelti er ofbeldi sem verður að taka alvarlega og koma í veg fyrir. Flestir skólar eru með eineltisáætlanir og foreldrar, kennarar og aðrir starfsmenn skóla eru í flestum tilvikum duglegir að  fylgjast með hvernig börnum líður í skólanum og grípa inn í eftir þörfum.

Ég tel þó að mun meira þurfi að gerast til að hægt sé að draga enn frekar úr einelti og jafnvel útrýma því alveg.

Lausnin felst ekki í fyrirlestrum, átaksverkefnum og eineltisáætlunum. Lausnin hefst með byltingu í skólakerfinu.

Skólaumhverfið sjálft hefur nefnilega töluverð áhrif á að einelti nær að þrífast á skólalóðinni.

Bylting í fimm skrefum…

1. Endurskilgreina þarf markmið grunnskólans

Höfuðáhersla ætti að vera lögð á að börnum líði vel í skólanum. Námsárangur á að vera í öðru sætiVellíðan barna er mikilvægari en einkunnir þeirra. Einkunnir eru ekkert nema tölur á blaði á meðan líðan fjallar um lífið sjálft. Ef börnum líður vel í skóla er námsárangurinn skammt undan en góður námsárangur er engin trygging fyrir vellíðan.

2. Leggjum niður frímínútur

Einelti og annað ofbeldi á sér stað í 50% til 75% tilfella í frímínútum. Enda ekki undarlegt þar sem þá mætast tugir eða hundruð barna á ólíkum aldri til að fá útrás. Börn sem eru í raun að taka sín fyrstu skref í mannlegum samskiptum. Nær væri að bjóða börnum upp á hreyfingu og afslöppun undir leiðsögn starfsmanna skólans. Hefðbundnar frímínútur eru beinlínis stórhættulegar og ætti því að leggja þær niður hið snarasta.

3. Kennum heimspeki í skólum

Sérstök og mikil áhersla ætti að vera lögð á að þjálfa börn heimspekilegri hugsun og hegðun í skólum. Hér á ég við skipulagða þjálfun tjáningu, framkomu, siðfræði og rökfræði. Slík þjálfun dregur ekki bara úr líkum á einelti heldur er hún gríðarlega mikilvægur undirbúningur fyrir lífið sjálft.

Góð menntun snýst ekki um að læra misgagnlegar staðreyndir utanbókar heldur um hvernig hægt er að verða sér út um þekkingu, vega hana og meta og ekki síst hvernig er best er að eiga í góðum og gagnlegum samskiptum við annað fólk.

4. Burt með heimalærdóminn

Þó heimalærdómur hafi ef til vill ekki bein áhrif á einelti þá getur óþarfa heimalærdómur haft áhrif á líðan barna og þar með hegðun þeirra. Eins og ég hef fjallað um áður þá benda rannsóknir til þess að heimalærdómur skili litlum sem engum árangri hjá grunnskólabörnum og því er hann beinlínis óþarfur og jafnvel skaðlegur.

5. Jákvæður agi er nauðsynlegur

Í öllum skólum eiga að vera skýrar reglur, bæði fyrir nemendur og starfsmenn, sem farið er eftir. Öll börn þurfa skýrar reglur og aga. Hér á ég ekki við heraga heldur sameiginlegan skilning skólafólks á því að jákvætt sé að koma fram við náunga sinn af virðingu. Erfitt getur verið að halda uppi jákvæðum aga og því nauðsynlegt að starfsmenn skóla fái nægjanlega góða þjálfun í mannlegum samskiptum.

Góður kennari er ekki aðeins góður í námsfögunum sjálfum. Góður kennari þarf líka að vera góður leiðtogi og fyrirmynd, jafnvel svoítill leikari í sér. Það er ákveðin sviðslist að kenna.

Byltum skólanum

Ég er einfaldlega sannfærður um að með þeim breytingum sem hér hefur verið lýst væri hægt að gera gott skólakerfi enn betra. Að sama skapi er ég viss um að ef farið sé eftir þessum tillögum væri hægt að nánast útrýma einelti og öðru ofbeldi á skólatíma.

Það er því til mikils að vinna.

Sigurður Hólm Gunnarsson

[happyforms id="458" /]

Tímapantanir og spurningar